151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær tillögur sem sá sem hér stendur, og aðrir úr svipaðri átt í stjórnarskrármálum, hefur ítrekað á þeim fundum sem við höfum haldið eru ákvæði sem gera ráð fyrir því að það nái yfir allar auðlindir. Tillagan er ekki sú að setja auðlindaákvæði sem á einungis við um fiskveiðiauðlindina heldur ákvæði sem á meðal annars við um fiskveiðiauðlindina. Þetta snýst um það að við gleymum henni ekki bara og látum eins og hún sé eitthvað sem við þurfum að halda fyrir utan umræðuna. Nýting á fiskveiðiauðlindinni er umdeildasta auðlindanýtingin á landinu og hefur verið það frá því að við settum kvótakerfið á til að byrja með, hvað þá þegar framsal var heimilað og allt það havarí sem fylgdi því. Ég vil bara hafa það á hreinu. Þá vek ég athygli á tveimur breytingartillögum, annarri frá Viðreisn og hinni frá Pírötum, Samfylkingu o.fl., sem gefa þinginu kost á því að greiða atkvæði um aðrar útfærslur. Þær varða báðar allar auðlindir. (Forseti hringir.) Ég óska eftir viðhorfi hæstv. ráðherra til þeirra breytingartillagna og til umfjöllunar þingsins um þær.