151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta auðlindaákvæði rúmar líka fiskveiðiauðlindina, að mínu viti. Þegar hv. þingmaður segir að það sé umdeildasta auðlindin sem við eigum þá skal ég bara verða fyrst til að segja: Já, fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið umdeilt. En það er ekki eina deiluefnið í auðlindanýtingu á Íslandi. Ég hlýt að minna á orkunýtingu sem er eitt af þeim grundvallarmálum sem hafa klofið þjóðina ítrekað og minni þar af leiðandi á að það er gríðarlega mikilvægt að hér sé verið að leggja til að auðlindir skuli nýta á sjálfbæran hátt og að ákvæði um umhverfisvernd rati inn í stjórnarskrá. Þau mál hafa ekki síður verið umdeild. Það er það sem ég er að benda á, að þetta ákvæði þarf að rúma alla þessa hugsun. Þess vegna geri ég athugasemd við upptalningu í ákvæðum og þess vegna geri ég athugasemd við að við séum að ræða gjaldtöku út frá því sem mér hefur þótt vera fyrst og fremst umræða um fiskveiðistjórnarkerfið en ekki aðrar auðlindir. Ég veit að þarna er heilmikill ágreiningur og það er ástæðan fyrir því að ég legg til þetta auðlindaákvæði en ekki það ákvæði sem kemur fram í breytingartillögunum sem hv. þingmaður spurði um.