151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi í upphafi þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja þetta mál. Ég held að það sé gagnlegt og mikilvægt að við náum umræðu um efnisatriði máls en ekki forsögu og endurtökum ekki einhverjar 10–12 ára gamlar deilur eins og við höfum oft lent í varðandi stjórnarskrármál.

Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um forsetakaflann eða II. kafla stjórnarskrárinnar sem varðar forseta og æðstu handhöfn framkvæmdarvalds. Þá vildi ég kannski fyrst segja að ég hef ýmsar athugasemdir við þann kafla og útfærslu hans, að því marki að ég tel að þar sé verið að breyta ýmsu sem er engin þörf á að breyta en annað látið standa sem væri kannski ástæða til að taka til endurskoðunar. Eitt atriði sem ég vildi spyrja sérstaklega um á takmörkuðum tíma varðar aðferðina við forsetakjör, hvernig hún kemur til. Hún var ekki sett í samráðsgátt á sínum tíma, ekki send til Feneyjanefndar heldur kemur hún síðar inn. Ég velti fyrir mér: Hvaðan í veröldinni er þessi hugmynd tekin?