151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þekki dæmið frá Írlandi og veit að einu sinni hefur verið notað kosningakerfi í þessa líkingu hér á landi, í stjórnlagaþingskosningunni frægu sem auðvitað var einhver mislukkaðasta kosning sem fram hefur farið hér á landi í allri lýðveldissögunni. En það er önnur saga og kemur þessu máli auðvitað ekki við.

En ég vildi bara nefna að ákveðnar breytingar sem er verið að gera á forsetaembættinu og kosningu og kjörtímabilum og öðru þess háttar gefa einhvern veginn til kynna að einhver hugmynd sé í gangi um að forsetaembættið sé raunverulegt valdaembætti og að með einhverjum hætti þurfi að takmarka valdatímann. Því þurfi að tryggja meirihlutakjör og þess háttar. Á sama tíma erum við með ákvæði, bæði í núgildandi stjórnarskrá og eins í þessum tillögum, þar sem skýrt er tekið fram að forseti sé bæði ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt. Mér finnst því töluverð mótsögn vera í þessu fólgin.