151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú kann að koma fram breytingartillaga um að tekið verði fullt gjald, markaðsgjald, fyrir auðlindir. Hún er ekki til umfjöllunar á þingi hér og nú. Það er tillaga um svokallað eðlilegt gjald sem eðli máls samkvæmt er alltaf ákvarðað af þinginu. Hv. þingmaður kýs hugsanlega að gera breytingartillögu um fullt gjald sem væri þá einhvers konar markaðsgjald. En ég er að benda á hér hversu erfitt okkur hefur einmitt reynst að ná utan um það að skilgreina gjaldtöku í stjórnarskrá. Það er vegna þess að sama hvað hver segir þá er þetta auðlindaákvæði um ólíkar tegundir auðlinda og ekki eingöngu um fiskinn í sjónum. Okkur getur fundist alls konar um það, það er eðlilegt því að við erum fulltrúar ólíkra flokka og ólíkra sjónarmiða. En ég legg á það áherslu að við tökum tillit til þessarar fjölbreytni í þessu ákvæði.