151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég klóra mér aðeins í kollinum varðandi auðlindaákvæðið vegna þess að ég skil ekki alveg hvað er unnið með því að taka fram í stjórnarskrá að með lögum skuli kveða á um gjaldtöku fyrir eitthvað. Ég hélt að það væri grundvöllur þess sem við gerum dagsdaglega. Við kveðum á um rammann utan um allt sem í landinu er, þar á meðal væntanlega gjaldtöku fyrir auðlindir. Hér hefur umræðan farið út í það að ekki sé hægt að líta á þetta sem eingöngu ákvæði um fiskveiðiauðlindina heldur þurfum við líka að hugsa um auðlindir sem eru í samfélagslegum rekstri. Já, en er það? Í b-lið 22. gr. er talað sérstaklega um heimildir til nýtingar í ábataskyni. Við erum ekki að tala um hitaveitur sem eru reknar á samfélagsgrunni, við erum ekki að tala um almannagæði sem við viljum ekki (Forseti hringir.) rukka upp í topp heldur erum við að tala um þær auðlindir sem stórfyrirtæki geta gert sér að féþúfu (Forseti hringir.) ef ekki er greitt sanngjarnt gjald fyrir.