151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem voru rædd mjög ítarlega á fundum nefndar sem starfaði 2013–2016 og er fjallað um hér í greinargerð Lagastofnunar sem ákveðið nýmæli í þessu frumvarpi, sem ég hefði talið vera fagnaðarefni. Það sem hefur einkennt umræðu um gjaldtöku, eins og sömuleiðis er rakið hér ágætlega, er einmitt að menn hafa ekki verið á eitt sáttir um túlkun þeirra ákvæða í fyrri frumvörpum. Mismunandi málefnaleg sjónarmið kunna nefnilega að ráða för þegar rætt er um gjaldtöku af nýtingu auðlinda. Þetta snýst ekki eingöngu um að kveðið sé á um að ekki sé öll nýting í ábataskyni, því það er hún ekki og á ekki að vera það endilega, heldur geta líka verið mjög mismunandi málefnaleg sjónarmið hvað varðar ólíkar tegundir nýtingar.