151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt af því að við erum að ræða um þær auðlindir sem nýttar eru í ábataskyni, þess þá heldur að kveðið sé á um hversu fullt gjaldið eigi að vera og að það sé tímabundið.

Mig langar aðeins að ræða breytingarákvæðið sem hæstv. ráðherra velur að leggja ekki fram. Í ljósi orða hennar í framsöguræðu um að við þekkjum hvernig það er þegar við erum með 15 skjöl í gangi með röktum breytingum, þá verði mistök og þá sé verkefnið dálítið stórt, er það ekki lýsandi dæmi um hvers vegna við þurfum breytingarákvæði sem leyfir breytingar á stjórnarskrá án þingrofs? Þannig hefði verið hægt að vinna þetta, ekki með 15 skjöl á lofti heldur kannski bara eitt í einu, taka auðlindaákvæðið fyrir eitt árið, samþykkja það, senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu, klára þann pakka, fara í næsta verk, frekar en að standa hér rétt fyrir kosningar með risastóran pakka (Forseti hringir.) þar sem er ekki búið að ræða alla þætti fyrir opnum tjöldum heldur takast á fyrir luktum dyrum í formannahópi í hartnær fjögur ár. (Forseti hringir.) Er það grunnurinn sem við viljum að ný stjórnarskrá standi á?