151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja, af því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að það sé stutt til kosninga: Það er nógur tími til að ræða þetta mál hér á þingi og langt til kosninga enn þá. Það snýst fyrst og fremst um að leggjast í verkefnið.

Hv. þingmaður gerir athugasemd við það að formenn flokka hafi fundað fyrir luktum dyrum. Gott og vel. Það er vinnulagið sem lagt var upp með og við höfum birt fundargerðir okkar og gögn opinberlega eftir því sem vinnunni hefur undið fram. En ég vil bara vitna aftur í ágæta samantekt Lagastofnunar þar sem vitnað er í það þegar umsagnaraðilar veittu umsögn um tillögu stjórnlagaráðs um fullt gjald þar sem stjórnlagaráð skýrði þá tillögu með því að miðað væri við bætur fyrir eignarnám þegar eign er tekin af eiganda hennar á grundvelli laga vegna almannahagsmuna. Þau sjónarmið gætu einfaldlega ekki átt við um sérhverja auðlind þó að þau gætu átt við í einhverjum tilvikum. (Forseti hringir.) Þessa umræðu er mjög mikilvægt að rekja sig í gegnum. Þess vegna tel ég að langtum eðlilegasta leiðin sé (Forseti hringir.) að löggjafanum sé falið það hlutverk með skýrum hætti.