151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann ræddi nokkuð um auðlindaákvæðið og kom inn á það í ræðu sinni að honum þætti það ekki nógu gott og það næði ekki einhverri samstöðu í hugsun meðal þjóðarinnar, ef ég skildi þingmanninn rétt. Nú hefur þetta ákvæði verið rætt hér í þingsölum a.m.k. síðan 1983 í alls konar formum. Það hefur verið rætt kannski mest síðan 2009 og hv. þingmaður þekkir ágætlega aðdraganda þeirrar umræðu og átti m.a., alla vega eins og ég hef skilið það, þátt í að ýta henni af stað í aðdraganda kosninganna 2009, þótt kannski ekki sé hægt að halda því fram að auðlindaákvæðið sem slíkt hafi verið aflvakinn í því. En engu að síður kom þingmaðurinn þeirri umræðu af stað og tók síðan væntanlega þátt í sams konar umræðu á árunum 2013–2016.

Mig langar að spyrja þingmanninn í framhaldi af þessu: Á hvaða tímapunkti má ætla að það sé tímabært að taka umræðu um auðlindaákvæðið upp á næsta stig og taka til afgreiðslu hér í þinginu, ef við á? Lítur þingmaðurinn virkilega þannig á, hvort sem við tökum það sem 12–13 ára umræðu sem hefur verið frá 2009 eða 30–40 ára umræðu frá 1983, að ekki sé tímabært að fara að klára þessa umræðu og leyfa þinginu að taka afstöðu til málsins?