151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það getur aldrei verið röksemd fyrir því að klára mál að það hafi gengið svo illa að vinna það og tekið svo langan tíma. En það er tímabært að afgreiða svona ákvæði, og vonandi er hægt að gera það sem fyrst, þegar myndast einhver skilningur á því hvað ákvæðið þýðir. Hættan við svona skrúðmælgi, eins og birtist í þessu ákvæði og reyndar fleirum, er sú að menn leggi gjörólíkan skilning í áhrifin af ákvæðinu og við vitum ekki einu sinni hvað er þarna undir, hvað verður flokkað sem náttúrugæði eða auðlindir. Þar af leiðandi myndast stjórnarskrárvarinn réttur til gjaldtöku, jafnvel eignarnáms. Vandinn við þetta ákvæði hefur verið sá að menn hafa fyrst og fremst rætt það út frá sjávarútvegsmálum. Ég held að þar sé skýringin á því hversu langan tíma hefur tekist að setja saman ákvæðið og jafnvel líka skýringin á því hvers vegna það er svona óljóst. Það er væntanlega til að reyna ekki hvað síst að nálgast það mál með slíkum hætti að menn geti skilið það hver á sinn hátt. En það er ekki gott þegar um stjórnarskrárákvæði er að ræða að menn samþykki það hver á sínum forsendum og ætli svo að túlka það í allar áttir. Stutta svarið er: Það er rétt að afgreiða það þegar menn vita hvað þeir eru að afgreiða.