151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og langar að grípa aftur þann þráð sem hann lauk máli sínu á, þ.e. þeirri vinnu sem unnin var 2013–2016. Hann vitnaði í það að Sigurður Líndal hefði leitt vinnuna framan af. Síðan tók við annar fulltrúi hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Páll Þórhallsson, og leiddi vinnuna áfram. Hv. þingmaður ræddi hér áðan svo ítarlega um umhverfis- og náttúruverndarákvæði sem honum þótti óljóst að einhverju leyti en eigi að síður byggir það á þeirri vinnu sem ég hef ávallt litið svo á að hafi framan af verið unnin undir forystu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég vil því bara spyrja aftur: Var hann ósáttur við þá vinnu eða hefur hann að einhverju leyti skipt um skoðun á ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og mun hann gera einhverjar tillögur til breytinga á slíku ákvæði? Því að ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður vilji sjá slíkt ákvæði í stjórnarskrá.