151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fáheyrt að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur í þessari umræðu lagt mikla áherslu á að við ræðum innihaldið, staðreyndirnar, skuli núna leggja svona mikið upp úr því hver hafi gert hvað og hver hafi sagt hvað. En gott og vel, ég var raunar búinn að svara andsvari hæstv. forsætisráðherra á a.m.k. tvennan ef ekki þrennan hátt. Sú vinna sem fram fór í tíð Sigurðar Líndals og eftir að hann lauk störfum var án efa mjög góð vinna. Þar komust menn áfram með auðlindaákvæði sem, eins og hæstv. ráðherra nefndi, er mjög áþekkt því sem unnið var með áfram í formannahópnum. Og hvað sagði ég um það ákvæði? Ég sagði að ég hefði hvatt hæstv. forsætisráðherra til dáða í því og verið ánægður með tilraunir hennar til að byggja á því ákvæði. En það að þetta ákvæði verði nýtilegt er auðvitað háð því að takist að greina hver áhrifin af því verða. Ég sýndi því skilning að það væri orðað með ákveðinni skrúðmælgi og kannski bætt inn í einhverjum aukaorðum sem tilraun til að leiða menn saman. En vinnan er ekki búin fyrr en sæmilega góður skilningur myndast á því hver verða raunveruleg áhrif af þessu. Ég hef þar af leiðandi hvorki gagnrýnt fyrri stjórnarskrárnefnd vegna þessa ákvæðis, eins og mér fannst hæstv. ráðherra gefa til kynna, né hefur mér snúist hugur hvað ákvæðið varðar enda, svo að ég ítreki það, hef ég hrósað hæstv. ráðherra fyrir að reyna að halda þessu saman. En ekki er hægt að innleiða það í stjórnarskrá fyrr en menn hafa áttað sig á því hver verða raunveruleg áhrif þess.