151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að halda því til haga þá nefndi ég að ég þekkti enga betri leið til að láta keppa um takmarkaðar auðlindir en einhvers konar útboð eða samkeppni. Ég væri opinn fyrir öðrum tillögum ef þær fyndust. Ég hef hins vegar litla trú á því að þingmenn hér geti fundið hið rétta verð. Útboð geta verið margs konar, þau er hægt að búta í sundur vegna þess að við þurfum að gæta líka að samfélagsstoðinni sem er hluti af sjálfbærninni. Það má bjóða út hluta í einu, bjóða út á ákveðnum svæðum og bjóða út til ákveðinna stærðarflokka. Síðan eru önnur lög eins og um hámarksaflaheimildir sem einstök fyrirtæki mega eiga sem koma stundum í veg fyrir að þau bjóði í meira. Þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu og þetta er, eins og ég sagði, gert alls staðar annars staðar.

Fyndist hv. þingkonu það eðlilegt, verðugt, gott eða auðvelt verkefni fyrir þingið ef við værum að funda um hvað væri eðlilegt að ákveðin fyrirtæki þyrftu að borga fyrir einhverjar lóðir eða hvað væri eðlilegt að þau fengju borgað fyrir að byggja brú Sundabrautar eða annað slíkt? Ég meina, komið þið með leiðir sem gefa okkur sannvirði. Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti a.m.k. hærra hlutfall til útreiknings veiðigjalds í ríkisstjórninni með Samfylkingunni en hann gerir núna. Á hverju byggist það? Tilfinningu? Samstarfsflokkunum? Hverju? (BjG: Forsendurnar …) Já, forsendurnar? Nei, þetta var bara hlutfallstala. Það er miklu eðlilegra að fólk keppi bara um þetta.