151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að heyra að hv. þm. Logi Einarsson sé tilbúinn til að ræða fleiri lausnir og fleiri leiðir í sambandi við stjórnarskrárbreytingar en bara að vera pikkfastur í tillögum stjórnlagaráðs frá þriðja kjörtímabili héðan í frá aftur í tímann. Ýmislegt hefur gerst í millitíðinni. Margar tillögur hafa verið ræddar á ýmsum vettvangi en í þeirri vinnu af því tagi sem ég þekki best strandaði á endanum á því að Samfylkingin og Píratar voru svo föst í því að það yrði að vinna áfram á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs að ekki væri hægt að ná niðurstöðu um neitt annað, jafnvel þótt sú málamiðlunarviðleitni væri mjög langt komin. Þá er ég að vísa til þess sem gerðist vorið 2016. Það sem ég er að inna hv. þingmann eftir er í raun og veru það hvort Samfylkingin er stödd á einhverjum öðrum og sveigjanlegri stað en þá og ég skil hv. þingmann þannig að svo sé og það er út af fyrir sig jákvætt.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í samræðum mínum við hv. þingmann að þessu sinni varðar tillögu sem hann hefur flutt ásamt fleiri þingmönnum um breytingarákvæði stjórnarskrár, sem er auðvitað ekki til umræðu sérstaklega hér í dag en hefur samt áhrif í þessu sambandi. Það vekur athygli mína að í þeirri tillögu, sem ég held að hafi verið dreift hér á þinginu í dag eða í gær, er gert ráð fyrir einfaldri samþykkt Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið án nokkurra skilyrða. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður og meðflutningsmenn hans hafi ekki skoðað t.d. þá útgáfu sem menn komu sér saman um vorið 2013, (Forseti hringir.) um breytingarákvæði sem fólu í sér aukinn meiri hluta á þingi og tiltekinn lágmarksstuðning við stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu.