151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna því sérstaklega að formaður Sjálfstæðisflokksins ætli að taka þetta mál alvarlega. Ég vona að hann líti ekki á stjórnarskrána sem dægurþras eða dægurmál. Ég fyrir mitt leyti lýsti því strax yfir, eftir að hafa unnið á þessum 25 fundum, að ég væri tilbúin til að vera á a.m.k. þremur málum. Ég er að mörgu leyti sammála ýmsu sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra um forsetakaflann. En það er ekki spurning mín hér heldur er ég núna einfaldlega að draga fram að við vildum sýna að hægt væri að ná breiðri samstöðu sem var lykillinn að upphaflegu vinnunni.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ég hafi þá skilið hann rétt, styður hæstv. fjármálaráðherra frumvarpið um auðlindaákvæðið eins og það kemur frá hæstv. forsætisráðherra? Ég held að það skipti mjög miklu máli að fá það á hreint. Er fjármálaráðherra að lýsa yfir stuðningi við þetta ákvæði? Af því að hann er búinn að hæla ákvæðinu sem snertir auðlindir eins og hæstv. forsætisráðherra leggur það fram.