151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég byrji bara á svipuðum nótum og hv. þingmaður vil ég fagna því að hún virðist ætla að taka umræðuna í þingsal alvarlega. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni. Ég skila því bara til hv. þingmanns og þakka fyrir þessa athugasemd hennar. Það er mér auðvitað mjög mikils virði að hún hafi tekið eftir því að ég ætlaði að taka málið alvarlega.

Ég held að ég hafi verið býsna skýr varðandi auðlindaákvæðið, að það sé vel rökstutt, að það nái utan um viðfangsefni sem við höfum verið að ræða í aldarfjórðung og að ákvæðið sé þó ekki fullkomið. Það sem ég hef einkum við ákvæðið að athuga er þörfin fyrir hugtakið þjóðareign. Auðvitað skiptir þar á endanum öllu máli hvernig er útlistað í greinargerð hvað átt er við. Þetta er auðvitað nýtt hugtak í íslenskum rétti sem hvergi er að finna með sambærilegum hætti og hér er lagt fram (Forseti hringir.) og ég áskil mér rétt til að halda áfram að ræða þann þáttinn.