151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um bráðabirgðaákvæðið sem hv. þingmaður vísaði til sem á sér sínar sögulegu skýringar og var með þeim öryggisventli að það myndi þá aldrei getað gerst nema með mjög ríkum stuðningi þjóðarinnar. Þetta á sér allt saman sögu sem var skrifuð á árunum frá 2009, og reyndar fyrir kosningarnar 2009, þar sem verið höfðu gríðarleg átök hér í þinginu, stál í stál, um hvernig ætti að vinna málið áfram. Það endaði í alls konar atkvæðagreiðslum og fyrirbærum eins og stjórnlagaráði og -þingi og hvað þetta allt saman hét. Það var tilraun þingflokkanna á Alþingi til að taka málið aðeins upp úr skotgrafahernaði og segja: Við getum gert þetta ef við náum breiðri samstöðu og náum líka samstöðu þjóðarinnar. En það dugði ekki til, því miður. Málflutningur minn gengur einfaldlega út á að það sé gott mál að leita til þjóðarinnar, líka eftir atvikum með beitingu þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á lögum eins og hv. þingmaður var að spyrja um. Ég vek hins vegar athygli á athyglisverðum niðurstöðum í rökræðukönnuninni um þetta atriði. (Forseti hringir.) En upphafspunkturinn er alltaf að virða stjórnarskrána eins og hún er.