151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[20:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þess vegna nefndi ég þjóðaratkvæðagreiðsluna sem rammar inn þann grundvallarvilja að hafa fullt gjald til hóflegs tíma í senn. Þar sem þjóðin er stjórnarskrárgjafinn rammar hún inn þær valdheimildir sem þingið hefur til að ákveða þessa hluti á einn eða annan veg. Nú hafa alveg komið fram málefnaleg rök fyrir því að fullt gjald geti ekki átt við um allar auðlindir. Þá er reynt að stilla það af með því að segja „eðlilegt“. En þegar við bætum við orðunum „í ábataskyni“ eigum við við auðlindir sem stjórnvöld ákveða að eigi að skila ábata. Fiskveiðiauðlindin á að vera rekin með afkomu sem skilar ágóða fyrir þá sem nýta hana, þar af leiðandi myndi það þýða fullt gjald og auðlindagjald, á meðan hitaveita eða eitthvað svoleiðis er bara rekið í (Forseti hringir.) samfélagslegum tilgangi og ekki væri ákveðið að fara út í ábatarekstur með nýtingu á slíkum auðlindum. Það væri munurinn þarna á. Ef við myndum bara bæta þessu við gætum við verið með fullt gjald og hóflegan tíma í senn.