151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari mínu við hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson og ítreka það við alla þá sem voru í þingmannanefndinni um breytingu á stjórnarskrá að mér þykir við hafa átt mjög ánægjulegt og að mínu viti, lengst framan af, farsælt starf. Það er næstum því að mig langi til þess að segja að þetta ætti heima undir störfum þingsins vegna þess að það kemur mér algjörlega á óvart hvernig við vinnum saman fyrir utan þennan sal, hvernig mér finnst við vera svo rosalega mikið og oft á sömu blaðsíðu, en svo þegar við komum hingað er fólk jafnvel farið að tala gjörsamlega í kross við það sem maður heyrði það segja skömmu áður á öðrum vettvangi. Ég á greinilega mikið ólært. Þetta verður mér erfitt. Ég er kannski að verða eins og Framsóknarflokkurinn, frekar íhaldssöm og gamaldags hvað varðar einhverjar stökkbreytingar frá því að labba úr einu herbergi fyrir utan þennan þingsal og svo inn í salinn og allt í einu er allt orðið allt öðruvísi.

En nú skulum við snúa okkur að því verkefni sem okkur var falið, þessum hópi formanna stjórnmálaflokkanna, að vinna að breytingu á stjórnarskrá. Það er ekki eins og stjórnarskráin okkar hafi ekki gengið í gegnum breytingar á sínum lífdögum. Mig minnir að einhver sú öflugasta, ein af þeim stærstu a.m.k., hafi verið í kringum 1993 þegar við breyttum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar í takti við það að við vorum að löggilda mannréttindasáttmála Evrópu. Sá kafli er í rauninni góður og ágætur, finnst mér, að flestöllu leyti. Ég er kannski líka svolítið íhaldssöm hvað varðar breytingar á stjórnarskránni yfir höfuð, sérstaklega þegar kemur að því að breyta henni bara breytinganna vegna, því ég hef oft gagnrýnt það að mér finnst að þeirri sem við eigum fyrir sé bara alls ekki hlýtt og fylgt. Þá hef ég gjarnan vísað í 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um þrískiptingu ríkisvaldsins, að löggjafinn, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið eigi að vera aðskilin. Það kemur frá hinum góða og gegna sáluga Montesquieu sem kom fram með þær kenningar að til að sporna gegn spillingu og öðru slíku væri hver armur ríkisvaldsins ákveðinn varnagli fyrir hina, en þeir ættu alls ekki að skríða undir sömu sæng eins og virðist vera gert hér á hinu háa Alþingi þar sem við erum með framkvæmdarvaldið og löggjafann í eina og sama kjörna fulltrúanum. Það er þverbrot á 2. gr. núgildandi stjórnarskrár. Ekki er það flóknara en svo. Síðan hef ég iðulega vísað til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að öllum skuli með lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna örorku, sjúkleika og annars. Mér hefur oft og tíðum þótt farið með þessa grein af mikilli léttúð og mér hefur ekki fundist, í vaxandi fátækt og kjaragliðnun, sérstaklega á síðasta ári, mikill vilji á hinu háa Alþingi til að fylgja gildandi stjórnarskrá. Lái mér hver sem vill.

En nú ætla ég að venda mínu kvæði í kross, hætta að tala um þá gömlu og skoða í staðinn helstu breytingartillögur sem hafa komið fram núna hjá hæstv. forsætisráðherra. Í 22. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Á eftir 78. gr. stjórnarskrárinnar koma þrjár nýjar greinar, 79.–81. gr., svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:“

Ég er ekki vön að vera með blað en ég var svo forsjál núna að koma með blað því ég kann þetta ekki allt utan að, þetta er svo nýtt. Í a-lið, sem verður 79. gr., er verið að tala um náttúru Íslands. Ég held að ég fari ekki með fleipur eða skrökvi upp á neinn þegar ég segi að við höfum í rauninni verið meira og minna sammála í formannahópnum þegar kemur að þessu ákvæði. Ég er alveg ofboðslega vonsvikin yfir því hvernig þessi staða er. En burt séð frá því ætla ég að snúa mér beint að efninu. Í a-lið segir, með leyfi forseta:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Vá, hvað þetta er öflugt. Maður er næstum því stjarfur, virðulegi forseti, þetta er svo glæsilegt. Ef þetta væri nú bara svolítið skýrara. Með því á ég við að stjórnarskráin okkar er grundvallarlögin okkar og þau eiga að vera það skýr að hvert einasta mannsbarn, a.m.k. hvert einasta mannsbarn sem getur lesið íslensku, því að ekki prentum við hana á öllum tungumálum, skilji hvað þar stendur. Við eigum ekki að þurfa að kalla inn alls konar lagatækna, prófessora og sérfræðinga á öllum sviðum til að mata okkur, jafnvel löggjafann sjálfan, á því hvað stendur raunverulega í löggjöfinni sem við erum að rembast við að setja. Er það ekki svolítið kaldhæðnislegt að við skiljum varla sjálf eða vitum varla hvort við erum að koma eða fara í því að setja lögin? Mér finnst það. Mér finnst það vont. Við eigum nokkrar reglur í almennum lögum, en samt mjög fáar, eiginlega skammarlega fáar, sem eru skýrar og taka af allan vafa um það hvað löggjafinn vill og hvað hann er að boða og hvað hann er að segja. Sem dæmi er regla sem segir að við eigum að keyra hægra megin á vegum, um hægri umferð. Það er regla sem segir að maður verði að vera orðinn tvítugur til að kaupa brennivín í áfengisbúð, það er líka regla. Svo er regla sem segir að 18 ára verði fólk sjálfráða. Það er regla. Þetta er skýrt og skorinort. Það fer ekkert á milli mála. Við þurfum ekki að kalla til einhverja sérfræðinga á öllum sviðum til að segja okkur hvað stendur þarna. En það er ívið verra þegar við erum að tala um eitthvað sanngjarnt og eðlilegt og þegar löggjafinn á að gera þetta og hitt og við vitum að skipt er um í brúnni sýknt og heilagt, þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eiginlega setið við stýrið meira og minna frá upphafi með smáhléum, með góðvinum sínum í Framsókn oftar en ekki. En þetta hefur stokkast og verður spennandi að sjá hvað verður á hausti komanda þegar við förum í næstu kosningabaráttu.

Með leyfi forseta ætla ég að halda áfram og segja frá þessu frábæra ákvæði í sambandi við náttúruauðlindirnar okkar. Þá er ég að tala um umhverfi og náttúruna, ég er ekki alveg nógu æst í að byrja á auðlindaákvæðinu sjálfu strax en það hlýtur að koma. Hér segir: „Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.“ Svo kemur frábært innlegg sem ég hef viljað rembast við að túlka, ég þarf sennilega að leita mér einhverrar sérfræðiaðstoðar til að skilja það: „Allir eiga rétt til heilnæms umhverfis.“ Svo kemur í 2. málslið 2. mgr. þessarar greinar að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ég velti fyrir mér og kom inn á það áðan í andsvari við hæstv. samgönguráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, hvort sá málsliður 2. mgr. tæki ekki af allan vafa um að okkur væri í rauninni frjálst að fara um landið ef í lögmætum tilgangi væri. Það stendur einfaldlega þarna. Ég myndi telja að ekki þyrfti að fá sérfræðing til að lesa þetta, mér finnst þetta eitt af því fáa sem er skýrt. Svo heldur áfram, með leyfi forseta: „Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa.“ Mér finnst það nú liggja bara í hlutarins eðli. Við erum ekki vön að vaða inn á annarra eign nema með leyfi, a.m.k. er það almenn kurteisi og ég tel að við gerum það yfir höfuð. Svo kemur að í lögum eigi að mæla fyrir um inntak og afmörkun almannaréttar.

Ég ætla ekki að lesa meira um þetta vegna þess að mér liggur mjög mikið á að sveifla mér yfir í b-lið 22. gr., sem verður 80. gr., nýja auðlindaákvæðið, sem mér þótti eins og flestum öðrum afskaplega spennandi. Mér finnst í rauninni stórmerkilegt að til þess að réttlæta það að toga það í einhverjar áttir þá er talað um allar auðlindir, berin sem við tínum, loftið sem við drögum að okkur, sólina, hvað eigum við að rukka fyrir hana? Jafnvel sandinn niðri í fjöru. Þetta er eiginlega alveg — ég ætla að nota það orð og það er ekki enskusletta en það er íslenska sem ég er ekki vön að nota hér: Mér finnst þetta hallærislegt. Við erum aðallega að tala um það sem hefur legið okkur á hjarta. Það er sjávarauðlindin okkar, sameign okkar og hvernig við höfum farið með hana og hverjir hafa fengið að nýta hana. Það er eiginlega það sem við erum að tala um. Og hvernig arður og renta hefur gengið til okkar þegar ákveðnum aðilum er heimilaður aðgang að auðlindinni.

Sem dæmi langar mig að nefna það, fyrst ég er komin í þennan ham, að einhvers staðar hefur verið sagt að meginmarkmiðið með gjaldtöku hafi verið alla vega það, og alls ekki minna en svo, að hún ætti að geta staðið undir rekstri á sjávarauðlindinni sjálfri. Það væri ekki verið að tala um að skila einhverri rentu í ríkiskassann heldur að íslenskir skattgreiðendur væru a.m.k. ekki að greiða með því að heimila einhverjum að veiða fiskinn í sjónum sem við eigum öll saman.

Við vorum að heimila í fjárauka 120 milljóna aukafjárveitingu til Hafró til að fara í loðnuleit. Það eru miklir hagsmunir fyrir okkur að finna loðnuna. Ég hefði talið að arðurinn, auðlindarentan, hefði átt að geta staðið undir því að leita að loðnu. Við hefðum ekki þurft að sækja aukafjárveitingu í fjárauka til þess að gera það. En svona er maður nú grunnur á því. Mér finnst mikla mótsögn að finna hér vegna þess að ég vil sjá fjármuni koma í ríkissjóð fyrir aðgang að auðlindinni, alvörufjármuni, fullt af peningum, ekki bara tugi milljarða fara í stórútgerð og vöxt hennar þó að mér finnist það alveg frábært. En við horfum upp á það að atvinnugrein sem fór af stað með það að ætla að veiða fiskinn í sjónum skuli nánast vera komin í fjölmiðlarekstur og tryggingafélög og nefnið það bara. Það er ekki einu sinni í tengingu lengur við það sem var farið af stað með nema að þessum hluta, að moka upp arði af auðlindinni og fjárfesta svo í allt öðruvísi rekstri. Ég held að markmiðið hafi aldrei verið slíkt, virðulegi forseti, ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst það frekar miður.

Við í Flokki fólksins höfum sagt að við viljum fá arð af auðlindinni. Við viljum fá hæsta mögulega verð fyrir aðgang að auðlindinni. Hvernig förum við að því? Hér hefur verið spurt: Hverjir hafa efni á að kaupa ef þetta fer á markað? Eru það ekki bara þeir sem eiga allan peninginn, verður ekki bara enn þá meiri samþjöppun? Það er einmitt málið, þannig yrði það ekki. Hér er ég í æðsta ræðustóli landsins, á löggjafarsamkundunni. Ég er á hinu háa Alþingi Íslendinga og það er akkúrat hér sem löggjöfin er sett. Það er hér og akkúrat hér sem við myndum búa til reglurnar, móta reglurnar, og skapa þá umgjörð sem við viljum hafa til þess að allir geti tekið þátt. Við erum sannarlega ekki að leyfa öllum að taka þátt. Eins og við vitum takmörkum við mjög aðgang að auðlindinni með kvótasetningu og öðru slíku sem átti svoleiðis að vera búið að þeyta upp fiskinum í sjónum. Hann átti að margfaldast og vera kominn í samt lag aftur fljótlega eftir að við fórum að vesenast í þessu í kringum 80 og eitthvað, 1983 minnir mig. Það hefur í rauninni ekki gengið eftir, því miður. Ég veit ekki alveg út af hverju, ég er enginn sjávarlíffræðingur þótt ég þykist nú allt vita á stundum. Ég tel að við getum gert þetta betur. Ég er þakklát fyrir að hér skuli standa að náttúruauðlindir Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Mér finnst það risastórt skref og ég er þakklát mjög fyrir það, en ég geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því að í áratugi hafa ákveðnir aðilar haft aðgang að auðlind sem þeir fengu í rauninni í fangið, sem þeir hafa haft heimild til að framselja, leigja og tileinka sér að öllu leyti, samanber eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Við eigum örugglega eftir að finna fyrir því og það verður örugglega látið á það reyna hver á raunverulega fiskinn í sjónum. Að ætla að láta þetta auðlindaákvæði virka afturvirkt held ég að gangi ekki upp. En löggjafinn getur alltaf tekið auðlindina til sín. Það er ekki vandamálið. Við getum alltaf kallað til baka kvótann, við getum alltaf innkallað hann í skömmtum og hvernig sem er. En það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum að ganga á eitthvað sem hugsanlega hefur skapast hefð fyrir að kallist eignarréttur. Þá mun ríkið bera skyldu til að greiða fyrir það fullt verð eins og um eignaupptöku væri að ræða. Við getum stigið inn ef við teljum að það sé almannahagur. Það er engum blöðum um það að fletta, ég er ekki að segja annað, alls ekki. Þetta er það sem ég hef verið að velta fyrir mér. Við, átta formenn stjórnmálaflokka, höfum verið að vinna að þessu, ekki bara á 25 fundum, ég myndi margfalda það síðan með a.m.k. þremur og hálfum. Ég held að þetta séu sirka 175 klukkutímar. Mér finnst allt í lagi að segja það líka, það er miklu stærri tala.

Nú langar mig að kíkja á annað ákvæði sem mér finnst mjög athyglisvert og eiginlega bara yndislegt og vona að sé svo skýrt að hafið sé yfir allan vafa hvað það þýðir og við þurfum ekki að kalla til marga sérfræðinga. Það er í sambandi við tungumálið okkar, c-liður 22. gr., ný 81. gr. Ég held að við séum öll sammála um hana. Mig langar bara að vitna í 2. mgr. greinarinnar sem mér finnst einstaklega falleg og ég er næstum viss um að þeir sem settu þetta fram hafa ekki fattað það, en þar stendur skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda.“

Virðulegi forseti. Hvað skyldi þetta þýða? Skyldi þetta þýða að þeir sem ekki geta haft tjáskipti sín á milli eða fylgst með því sem við erum að gera nema með táknmáli fái þann rétt hér með c-lið 81. gr.? Þegar við erum búin að löggilda þetta ákvæði — við hljótum öll að vera sammála um að gera það — erum við þá að segja að við bjóðum aldrei þegnum okkar upp á annað en að vera með táknmál alls staðar þar sem við komum fram? Táknmál hér á þingi? Marga sem sitja þarna úti í samfélaginu langar að fylgjast með því sem við erum að segja hér og nú. Ég hef engan heyrt tala um það að í rauninni er þetta tímamótagrein. Hún er meira að segja risastökk í áttina að því sem við erum alltaf að kalla eftir varðandi réttindi fatlaðs fólks samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna.

Svo er eitt sem ég verð að koma að, ég er alltaf næstum því á leiðinni úr ræðustólnum, ég held alltaf að ég sé hætt, en ég sakna þess að sjá það hér inni að við treystum þjóðinni til að taka ákvarðanir. Mér þykir það mjög miður. Við fórum eiginlega af stað með það og ræddum það þegar við vorum að glíma við forsetakaflann og einfalda hann og vildum gera hann skilvirkari og skýrari vegna þess að fæstir vita í rauninni hvert hlutverk forsetans er. Það virðist vera hártogað í allar áttir. Hér úti í samfélaginu kemur hver stjórnskipunarsérfræðingurinn á fætur öðrum sem veit allt um það hvaða völd forseti Íslands hefur og veit það jafnvel betur en hinn virðulegi, frábæri forseti okkar gerir sjálfur. Það er alveg með ólíkindum hvað hann á stundum að vera valdamikill og menn virðast gleyma því að við búum við þingræði, ekki forsetaræði. En við vorum að tala um 26. gr. núgildandi stjórnarskrár, um málskotsréttinn sem við vitum að okkar ágæti Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, virkjaði á sínum tíma. Við vorum að tala um hvort við gætum alveg eins virkjað þjóðina, að X mörg prósent eða X mörg þúsund þjóðarinnar gætu kallað eftir atkvæðagreiðslum um mál sem okkur varða og eru umdeild úti í samfélaginu og varða okkur kannski til framtíðar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég sakna þess að við næðum að setja það inn vegna þess að mér finnst meira um vert, sérstaklega þar sem þjóðin er t.d. stjórnarskrárgjafinn, að þjóðin fái að taka meiri þátt vegna þess að við vitum alveg hvernig þingræðið okkar virkar. Hér eru flokkar samankomnir, sumir í stjórnarandstöðu en aðrir í ríkisstjórn. Hér er meirihlutastjórn venjulega við lýði þannig að það skiptir í rauninni engu máli hvað minni hlutinn gaggar. Ef meiri hlutinn ætlar að fara með eitthvað fram þá bara gerir hann það. Það eru oft kannski bara 32–34 þingmenn. Auðvitað eru þeir lýðræðislega kjörnir en það breytir ekki þeirri staðreynd að það form sem við erum að vinna eftir er að mínu mati voðalega samansaumað og óskilvirkt á margan hátt og ósanngjarnt líka gagnvart okkur sem erum t.d. í stjórnarandstöðu hverju sinni. Ég held að ég geti talað fyrir munn allra sem hafa verið í stjórnarandstöðu, allir hafa neyðst til að prófa það, þegar ég segi að maður nái nánast engu fram. Það sem verra er, kjósendur halda jafnvel að stjórnarandstöðuþingmenn séu ekki að gera nokkurn skapaðan hlut þó að maður vinni myrkranna á milli til að reyna að berjast fyrir þeim málefnum og hugsjónum sem maður er kjörinn út á.

Nú er ég farin að láta gamminn geisa í allar áttir. En þetta er það sem ég vildi sagt hafa í bili. Ég ítreka að mér þykir stjórnarskráin okkar vera þess eðlis að hún eigi að vera skýr, hún eigi að vera það skýr að hver einasti læs einstaklingur sem getur litið á hana skilji það sem þar stendur. Mér finnst ekki við hæfi að setja inn orðalag um eitthvað eðlilegt eða sanngjarnt eða eitthvað matskennt, sem fer í rauninni eftir því hver situr í ráðherrastólum hverju sinni, um hvernig hlutirnir fara fram. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Mér finnst ekki að stjórnarskráin eigi að vera full af lagaáskilnaðarreglum þannig lagað séð og ekki að þingið sem slíkt hafi í rauninni allt of mikið vald hvað hana varðar, mér finnst hún vera það takmörkuð. Enda er hún pínulítil, miklu minni en ég hélt. Ég hélt að þetta væri einhver ægilegur doðrantur þegar ég var að fara að skoða stjórnarskrána í fyrsta skipti en þá var þetta bara pínulítill bæklingur sem kom mér mjög á óvart, skemmtilega og þægilega á óvart meira að segja. Textinn á að vera skýr og hann á að vera góður fyrir okkur öll og það er það sem ég hef að segja.