151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á einlægni. Það er alltaf mikilvægt. Öryggi og gæði rannsókna hafa verið höfð að leiðarljósi varðandi þessar rannsóknir leghálssýna. Það getur ekki verið sérstakt hagsmunamál hvar sýnin eru greind heldur að þau séu rétt greind. Það er öryggismál. Við flutning þjónustunnar er eðlilegt að einhver tími fari í að taka við nýju hlutverki og koma öllu í sitt horf. En staðan er þannig nákvæmlega núna að stóri samningurinn um greiningu á þessum sýnum var tilbúinn á föstudaginn var og nú hafa 2.000 sýni sem voru uppsöfnuð hjá Krabbameinsfélagi Íslands verið send út. Þau seinni voru send út í dag til Danmerkur. Um 400 sýni sem voru tekin í lok desember og í byrjun janúar verða send út eftir helgi. Það verður haft samband við allar konur sem eiga sýni og þeim tilkynnt niðurstaða sýnatökunnar en það er talið að allt að 15% kvennanna þurfi að fara aftur í leghálssýnatöku sem heilsugæslan býður konunum upp á að kostnaðarlausu.

Það er, virðulegur forseti, mjög mikilvægt að freistast ekki til að tala niður opinbera heilbrigðisþjónustu í pólitísku skyni. Við eigum nefnilega ómetanlegan auð í því fagfólki sem er til staðar í heilsugæslunni og annars staðar í hinu almenna og opinbera heilbrigðiskerfi um allt land. Þetta kerfi er sameign okkar allra landsmanna, ómetanlegur auður af þekkingu og fagfólki sem er tilbúið að taka við nýju hlutverki en hefur um leið setið undir því að vera úthúðað fyrir sitt starf og af því fólki sem leggur áherslu á það hér að nýta stöðuna í pólitísku skyni.