151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

umræður um utanríkismál.

[14:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. forseta fyrir mikla nákvæmni í bjölluslætti en bendi honum kannski á að dempa bjölluna örlítið fyrr. Ég var einu sinni varaforseti þingsins og ég fékk þessi skilaboð frá konu ofan af Skaga og beini þeim hér með áfram til hæstv. forseta. Varðandi umræðu um utanríkismál þá er það rétt, sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir segir, að auðvitað eigum við þingmenn að taka frumkvæðið og koma málum á dagskrá. Ég vil aðeins koma inn á tímann sem við fáum, ekki bara núna um skýrsluna heldur einnig í sérstökum umræðum áðan. Mér finnst t.d. óþægilegt í sérstökum umræðum, og þetta er eitthvað sem þarf að skoða í þingskapanefndinni, að þegar málshefjandi og svo ráðherra fá að loka umræðunni þá hafa þeir eina og tvær mínútur til að taka saman og svara spurningum þingmanna. Ég held að við ættum aðeins að horfa til þess ef og þegar við gerum mögulegar breytingar á reglum um sérstakar umræður.