151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:15]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Áfram gakk, segir hæstv. utanríkisráðherra. Það er gott því að ekki viljum við nema staðar. Þetta er ágæt skýrsla. Það er margt mjög fróðlegt í henni og mér finnst hún að mörgu leyti draga ágætlega fram hversu mikilvæg alþjóðaviðskipti eru fyrir okkur Íslendinga. Þarna er líka tæpt á ýmsum verkefnum utanríkisþjónustunnar sem eru ákaflega mikilvæg fyrir okkur öll og gerð ágæt grein fyrir því hvernig tekist var á við og er verið að takast á við vandann sem kom upp varðandi íslenska ríkisborgara víða um heim í tengslum við Covid. Þar stóð utanríkisþjónustan sig mjög vel.

Það eru engin tíðindi fyrir fólk í þessum sal að utanríkisviðskipti og samskipti við umheiminn eru Íslendingum sérstaklega mikilvæg vegna þess að við erum fámenn þjóð og getum ekki verið sjálfum okkur nóg um alla hluti. Þess vegna er ákaflega brýnt að við getum átt viðskipti sem víðast á sem hagstæðustum kjörum, til að við getum líka byggt upp fjölbreytt atvinnulíf sem stendur undir góðum lífskjörum. Það er því algerlega klárt að utanríkisviðskipti eru okkur gríðarlega mikilvæg. Það eru sífelldar breytingar í heimi utanríkisviðskipta. Við ræddum áður, í tengslum við valdaskiptin í Bandaríkjunum, um mikilvægi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og hvernig Bandaríkin hafa dregið úr þýðingu fjölþjóðlegra viðskipta í valdatíð Trumps en við vonum öll að það muni breytast. En ég ætlaði nú ekki að endurtaka það.

Allt er breytingum undirorpið. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. utanríkisráðherra ræddi ekkert, ég vona að ég sé að fara rétt með, um Bretland og Brexit og tækifærin sem þar eru. Ég sakna þess svolítið að ekki skuli vera einhvers konar greining á því sem er að gerast og mun gerast. Nú er Bretland gengið úr Evrópusambandinu. Það verða ýmsar breytingar. Það verða breytingar á útflutningsmynstri. Talsverður útflutningur hefur verið frá Íslandi um Bretland til Evrópu og annarra landa. Það er sérstaklega dregið fram í skýrslunni að Rotterdam sé mikilvæg umskipunarhöfn en mikill útflutningur fer í gegnum Bretland. Hvaða áhrif mun þetta hafa, t.d. hvað varðar útflutning á fiski? Mun hann í auknum mæli fara beint yfir á meginlandið en ekki hafa neina viðkomu í Bretlandi? Það er mjög mikilvægt að mínu mati að greina þetta betur og í ljósi fyrri umræðu um þau gríðarlegu tækifæri sem Brexit myndi skapa Íslendingum þá sakna ég þess aðeins í þessari framtíðarsýn hæstv. ráðherra að hann skuli ekki fara betur yfir það í annars ágætu riti.

Ekki þarf heldur að fjölyrða um það að sá sem hér stendur telur að við eigum að tengjast miklu betur og sterkari böndum við Evrópusambandið og eigum að ganga í það af mörgum ástæðum, m.a. viðskiptalegum en ekki síður af menningarlegum og pólitískum ástæðum og atriðum sem varða umhverfismál o.fl.. En eins og hæstv. utanríkisráðherra er tamt leggur hann lykkju á leið sína til að reyna að smætta Evrópusamvinnuna og birtir úr gamalli samantekt prósentutölur um tollskrárnúmer til að sýna fram á hversu vitlaust það sé að ganga til samstarfs við Evrópusambandið. Þetta finnst mér nokkur ljóður á góðri skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og hans nálgun á þessi mál yfirleitt, að reyna alltaf að smætta þetta niður í prósentur og fjölda tollnúmera. Auðvitað snýst aðild Íslands að Evrópusambandinu alls ekki um fjölda tollnúmera eða meðaltal tolla. Það er bara svo langt frá því. Það er ekki verið að leggja neitt mat á það hvort aðild að Evrópusambandinu sé góð eða vond fyrir Ísland, alls ekki. Það er verið að smætta þetta mál og afvegaleiða vísvitandi, að mínu mati, umræðuna um þetta stóra og mikilvæga mál sem snertir framtíðarsamskipti okkar við Evrópu og það veldur mér vonbrigðum. En það er ekki í fyrsta skipti sem ég verð fyrir slíkum vonbrigðum og ég hef áður átt orðastað við hæstv. ráðherra um það, en ég fæ honum ekki breytt og sjálfsagt hann ekki mér heldur.