151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[17:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma í andsvar við mig. Þessi nýstárlega leið er kannski sökum þess að ég hafði ekki tök á að fara í andsvar við hv. þingmenn þegar þeir héldu sínar ræður. En ég fagna þessu og ég tek undir að það er mjög mikilvægt að ræða málefni norðurslóða sem víðast. Nú hef ég haft tækifæri til að sitja eitt þing Norðurlandaráðs og ég átta mig á því að á slíkum risastórum viðburðum verður kannski ekki djúp umræða um svona hluti. En það að ræða norðurslóðamál á vettvangi Norðurlandaráðsþings held ég að sé mjög mikilvægt, hvort sem það er í flokkagrúppunum eða í undirhópunum. Þar er auðvitað af mjög mörgu að taka og ég hygg að öll Norðurlöndin séu með það í sinni norðurslóðastefnu að vilja að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Spurningin er aftur á móti hvort þær séu það og hvort við höfum tök á að vera ráðandi aðili í því að svo sé. Við getum sannarlega lagt mikið til umræðunnar í þeim efnum og ég held að ósk allflestra, ef ekki allra, sem koma að Norðurskautsráðinu sé að þetta sé lágspennusvæði.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hann kom inn á og vísaði aðeins í það sem rætt hefur verið í flokkahópnum. Við getum líka velt fyrir okkur náttúruauðlindum, nýtingu náttúruauðlinda. Hvers konar náttúruauðlindir er eðlilegt að nýta? Hvers konar náttúruauðlindir er ekki eðlilegt að nýta? Hver er framtíð hafsvæðisins sem við mörg hver á Norðurlöndum byggjum auðvitað okkar afkomu mikið á, alla vega við á Íslandi? Þetta eru spurningar og umræða sem á heima örugglega á öllum Norðurlöndunum, ekki síst hjá okkur á Íslandi. Það eru miklir hagsmunir undir og ég þreytist ekki á að segja að við erum norðurslóðaríki og við eigum að tala um okkur sem slíkt og við eigum að leggja áherslu á það í allri okkar utanríkispólitík.