151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[18:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka fyrir ágæta skýrslu og ágæta umræðu. Ég stekk hér inn örsnöggt vegna þess að ég varð var við mjög áhugaverða umræðu um EGNOS-kerfið og stöðu Íslands og ekki síður Grænlands gagnvart því. Ég vildi í fyrsta lagi þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að vekja máls á því og reyna að halda því uppi á vettvangi Vestnorræna ráðsins. Það er mikilvægt að við leysum þar úr. En ég vildi koma því á framfæri að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, sem kunna að vera rangar, er engin raunhæf leið fyrir okkur að taka beinan þátt í EGNOS-samstarfinu öðruvísi en að gerast aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu. Fyrir því eru ýmsar ástæður og auðvitað er það samningsatriði, það er örugglega einhver leið fram hjá þessu, en það er til svo mikils að vinna að ganga í Geimvísindastofnun Evrópu. Búið er að samþykkja þingsályktun frá Alþingi með öllum greiddum atkvæðum þess efnis að við eigum að leitast eftir aðild að Geimvísindastofnun Evrópu. Ég skil ekki hvers vegna við erum hér, að ég held fjórum árum eftir að sú tillaga var samþykkt, og ekki einu sinni byrjuð á því ferli. Samtölin virðast ekki eiga sér stað. Ég veit satt að segja ekki hvaða ráðuneyti situr uppi með boltann í dag. Ég held að það sé atvinnuvegaráðuneytið, þ.e. málið liggi hjá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Það er ljóst að þarna þarf hreyfing að komast á.

Mér finnst áhugavert að setja það í samhengi við vestnorrænt samstarf vegna þess að það er gagn að því að kerfið nái yfir allt Ísland en ekki bara austasta hluta landsins eins og það gerir í dag og ekki síður að það nái yfir Grænland. Það eru leiðir til að ná því. T.d. væri hægt að gera það með því að setja hreinlega fleiri gervihnetti á sporbraut eða breyta stefnu þeirra örlítið, en slíkt verður aldrei gert nema í samstarfi við þau Evrópulönd sem standa að kerfinu. Kannski eru verðmæti í því fyrir vestnorræna samstarfið að leggja áherslu á að leysa úr þessu vegna þess að það skiptir hreinlega máli fyrir alla þá flugumferð sem á leið þar um, svo ekki sé talað um önnur hugsanleg not fyrir EGNOS og þau eru ansi mörg, ég ætla ekki að fara í það hér. En ég þakka aftur fyrir að vekja máls á þessu.