151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Að sjálfsögðu getum við rætt um það að hve miklu leyti er um táknrænar breytingar að ræða eða beinlínis efnislegar þegar kemur að stöðu þingsins. Ég held þó að skoða verði þá mynd í heild sinni og það dregst upp ákveðin mynd með þeim breytingum sem hér eru gerðar sem allar ganga í sömu átt, að því er ég fæ best séð, að undirstrika og styrkja sjálfræði þingsins og mikilvægi þess miðlæga hlutverks sem þingið hefur í stjórnskipun okkar. Þingræðisreglan — já, að sjálfsögðu höfum við gengið út frá henni og í reynd hefur hún verið í gildi hér, það hafa allir verið sammála um, samanber 1. gr. stjórnarskrárinnar. En það má spyrja sig að því hversu sterk staða hennar hefur verið gagnvart ýmsum öðrum þáttum eins og þingrofsmöguleikanum. Sú skoðun var uppi og ýmsir töldu að það væri einkaréttur forsætisráðherra óháð vilja þingsins. Því er ég ósammála, eins og ég fór yfir í ræðu minni, og kannski ræðum við þá betur um þetta þegar hv. þingmaður hefur flutt sín rök. Mér finnst það vera algerlega sjálfgefið að þing á ekki að rjúfa á miðju kjörtímabili, eða hvenær sem það er, í óþökk vilja þess sjálfs, meiri hluta þess. Þingið á skýlausan rétt á því ef það vill reyna að mynda á nýjan leik starfhæfa ríkisstjórn í samræmi við þá skyldu sína og það hlutverk, en það á ekki endilega að hafa ótakmarkaðan tíma til þess og myndi aldrei hafa. En að henda þinginu heim í andstöðu við vilja þess sjálfs og ekki sé einu sinni gefið færi á að kanna hvort möguleiki er á annars konar ríkisstjórn, annars konar meiri hluta, finnst mér ekki í samræmi við grundvallarstöðu þingsins. Hitt er svo annað mál, og það kann að vera rétt, að búa þarf með mjög skýrum hætti um það hvernig þessi vilji eða afstaða þingsins verði könnuð. En ætli við verðum ekki að treysta nokkuð á að þeir forystumenn sem við sögu kæmu, þ.e. forseti lýðveldisins, forseti Alþingis og formenn þingflokka, væru þeim vanda vaxnir að veita réttar upplýsingar um stöðuna.