151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er einmitt freistandi að halda aðeins áfram með þessa umræðu um 21. gr. fyrst við erum á þeim nótunum. Þegar mál koma í nefnd og verið er að svæfa þau er ábyrgðin á því að þau komist áfram á dagskrá í öllum tilfellum í höndum framsögumanns. Ef framsögumaður biður ekki um að málið fari á dagskrá þá er það náttúrlega bara þannig. Í öllum tilfellum þar sem ég fjalla um að talað sé um að mál sofni í nefnd er það þegar framsögumenn vilja fá málin á dagskrá, vilja fá þau afgreidd úr nefnd en komið er í veg fyrir það með ýmsum ráðum, málefnalegum eða ekki. Á þeim nótum tek ég undir að 21. gr. er framför miðað við núverandi ástand. Ómálefnalegar ástæður þess að stöðva mál, svæfa mál, verða einfaldlega erfiðari eftir því sem tíminn líður, ómálefnaleg heit daga einfaldlega uppi eftir því sem tíminn líður af því að það verður augljósara og augljósara að um ómálefnalegar tafir er að ræða.

Þær tillögur sem við fjöllum um hér eru að mörgu leyti bara mjög góðar. Í 3. gr. er t.d. fjallað um kjörtímabil forseta og takmörkun á því að forseti sitji lengur en tvö kjörtímabil samfleytt. Mér finnst það vera ágætisfordæmi fyrir ráðherra og meira að segja líka þingmenn að takmörkun skuli vera á fjölda kjörtímabila fyrir kjörna fulltrúa

(Forseti (SJS): Er þessu beint að einhverjum sérstökum?)

Nei, þessu er ekki beint að neinum sérstökum, alls ekki, heldur sérstaklega að ráðherrum, að því er ég tel, og þá kannski fyrri ráðherrum sem eru ekki lengur á vettvangi. Þetta er eitthvað sem við erum statt og stöðugt að læra, að ákveðin þaulseta hefur áhrif, sérstaklega þegar fólk er við völd. Völd spilla einfaldlega, við vitum það. Hversu mikið? Það veit í raun enginn fyrr en viðkomandi tekur við völdum. Almennt séð er kannski ákveðinn öryggisventill að það sé einfaldlega takmörkun á fjölda kjörtímabila til að tempra þá áhættu. Við erum með fjölda fólks hér úti sem getur auðveldlega gegnt þessum störfum, enda er fólkið sem kemur hingað inn bara almennir borgarar eins og gengur og gerist

Í 7. gr. er verið að breyta forsendum þess að hér sé landsdómur sem enn er í notkun í einhverjum Norðurlandanna. Mér finnst mjög merkilegt að heyra málflutning ýmissa núverandi og fyrrverandi ráðherra sem hafa kannski lent í þeim eina landsdómi sem var kallaður saman hérna eða mögulega tekið ákveðnar ákvarðanir sem gætu átt við landsdóm. Þeir ráðherrar tala oft um að landsdómur sé alveg ómögulegt fyrirbæri, að hann sé pólitískur o.s.frv. Og vissulega má renna ákveðnum stoðum undir það. Í eina skiptið sem landsdómur var kallaður saman hefðu þeir sem voru hér á þingi kannski mátt vera aðeins víðsýnni í því að klára það mál á almennari nótum en ekki á þann þröngsýna hátt eins og takturinn var sleginn þar. Ég held samt að það fyrirkomulag sem hér er lagt fram sé skýrara, án þess þó að ég taki undir það að landsdómur sé endilega alveg glatað fyrirbæri eins og sumir vilja halda. Landsdómur er fyrirkomulagið sem við erum með núna og ef upp koma brot hvað varðar ráðherraábyrgð eigum við að nýta landsdóm. Hann er ekki ónýtur, hann er alveg fullgildur og virkur hvað það varðar. Þetta er jú allt í lagi leiðrétting en ekkert sem er nauðsynlegt eða liggur á. Við erum með fullgott fyrirkomulag núna sem á að glíma við brot sem tengjast ráðherraábyrgð og embættisverkum ráðherra.

Í 9. gr. er verið að bæta við þjóðréttarsamningum sem er gott og blessað. Í 10. gr. er verið að bæta við þingsályktunum á ríkisstjórnarfundum sem er líka bara mjög gott. Verið er að skýra vantraustið í 13. gr. Í 17. gr. er bætt við hvernig skuli birta lög, almenn stjórnvaldsfyrirmæli og þjóðréttarsamninga sem ríkið hefur fullgilt. Það er viðbót við núverandi fyrirkomulag og er mjög gott. Ég fjallaði um 21. gr. hér áðan í andsvari og aðeins í upphafi ræðunnar. Ég tel einmitt að hún ætti ekki einungis að eiga við um frumvarp heldur líka þingmál. Þing er í rauninni starfandi allan ársins hring, allt kjörtímabilið þegar allt kemur til alls. Til að þingmenn geti sinnt eftirlitshlutverki sínu ættu þeir að geta lagt fram fyrirspurnir hvenær sem er, þess vegna daginn fyrir kosningar ef út í það er farið. Þá komum við að 21. gr. Þetta eru ákveðnar leiðréttingar, viðbætur við núverandi fyrirkomulag og það er bara gott og blessað.

Þá komum við að þremur nýjum greinum sem mig langar aðallega að fjalla um og þar er helst auðlindaákvæðið. Þar rek ég augun í síðasta orðið í b-lið 22. gr. um auðlindir í náttúru Íslands. Þar er talað um að með lögum skuli kveðið á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni. Þegar hæstv. forsætisráðherra kynnti frumvarpið hér í ræðustól Alþingis hljómaði þetta orð dálítið fram og til baka í hausnum á mér. Ég fann þarna tengingu við umræðuna sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarinn tæpan áratug, eða lengur í rauninni, um fullt gjald eða eðlilegt gjald. Mér fannst alla vega augljóst að ef auðlind væri nýtt í ábataskyni ætti fullt gjald að sjálfsögðu að eiga við, annars eðlilegt gjald. Ýmsir geta þá kannski farið í hártoganir um hvað sé í ábataskyni og hvað sé fullt gjald. En það er í raun mjög skýrt þegar allt kemur til alls og ekkert svo erfitt að fara út í þá sálma. Varðandi fullt gjald væri bara ákveðið uppboð þar sem hægt væri að skipta á ýmsan hátt o.s.frv., bara svo lengi sem aðgengið væri jafnt að því að reyna að komast í að hagnýta auðlind til ábata.

Hvað er það að vera í ábataskyni? Þegar ég hef reynt að lýsa þeirri hugmynd fyrir ýmsum sem hafa spurt þá hef ég sagt að sjávarauðlindin sé augljóslega nýtt í ábataskyni af þeim sem hana stunda. En ég hef einnig sagt að það gæti líka þýtt að handfæraveiðar yrðu frjálsar. Þá spyr fólk: En er það ekki í ábataskyni fyrir sjómanninn sem fer á handfærabát sínum, veiðir og selur á markaði? Jú, vissulega en það er aðgengi fyrir alla. Allir eru með sama aðgang. Aðgengi er ekki takmarkað fyrir handfæraveiðar, nema kannski bara í ákveðinn tíma en á þeim tíma hafa allir jafnan aðgang. Ábati þess sem sækir sér þann rétt — það er í raun bara almannaréttur sem líka er verið að styrkja í náttúruákvæðinu, þ.e. að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi, að hann þurfi að virða náttúruna o.s.frv. Almenningur hefur getað tínt bláber og þess háttar, bara hver fyrir sjálfan sig og jafnvel sett berin í dollu og selt þau einhverjum eins og gengur og gerist, bruggað úr þeim snafs og því um líkt eins og maður hefur séð gert. Allt gott og blessað með það. — Við ættum kannski að klára frumvarpið um heimabruggun til að gera það aðeins skýrara svo að fólk sé ekki tæknilega séð að svíkja undan skatti og þess háttar. Það væri mjög gott að það væri líka aðeins skýrara. — En þarna er aðgengið að auðlindinni jafnt. Það var ekki fyrr en stjórnvöld ákváðu að takmarka aðgengi að ákveðinni auðlind, til hagnýtingar í ábataskyni við þá aðila sem komast í þá hagnýtingu umfram aðra, sem ákvæðið datt í að vera með fullt gjald.

Þarna sé ég tækifæri til að hætta þessu rifrildi sem hefur verið um það hvort það eigi að vera fullt gjald eða eðlilegt gjald. Báðir aðilar hafa rétt fyrir sér. Hægt er að túlka eðlilegt gjald á þann hátt að það sé eðlilegt að setja kvótann á uppboð og fá fyrir hann markaðsgjald sem er þá eðlilegt gjald í því tilfelli. En þá er líka gott að vera skýr með að í slíkum tilfellum eigi að vera fullt gjald til þess að við getum ekki troðið okkur út úr þeim skilgreiningum á allan þennan lagatæknilega — hvernig get ég orðað þetta kurteislega? — hátt, hvernig farið er með þau mál í klassískum pólitískum skilningi, hvernig snúið er út úr því sem annars ætti að vera augljóst. Ég skal reyna að hafa það þannig.

Þarna finnst mér vera tækifæri til þess að bæta við í auðlindaákvæðið þeim orðum sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs, að þegar gjald er tekið fyrir heimildir á nýtingu í ábataskyni sé það gert gegn fullu gjaldi til tiltekins hóflegs tíma í senn. Þá held ég að við séum bara nokkuð góð með það ákvæði. Það eru kannski smáagnúar hér og þar sem er kannski enginn rosalegur styr um. Það er aðallega þetta rifrildi um eðlilegt gjald eða fullt gjald sem hefur í rauninni tafið, held ég, það að stjórnarskráin sé uppfærð. Ef við komumst yfir þessa hraðahindrun held ég að við séum nokkuð góð það sem eftir er. Að sjálfsögðu lít ég ekki svo á að þetta frumvarp uppfylli niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um að við eigum að leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem sé grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þetta er hluti af því. Við eigum enn eftir að uppfylla niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þetta verður samþykkt verður það frumvarp einfaldlega styttra. En við höfum ekki klárað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og það er eitthvað sem við ættum að gera. Miðað við allt ferlið hingað til, undanfarinn áratug, held ég að áhugavert gæti verið að sjá hvort við getum náð einhvers konar sameiginlegum skilningi á því hvernig — við getum einfaldlega bæði haft eðlilegt gjald fyrir nýtingu auðlinda í þjóðareign almennt og þegar síðan stjórnvöld ákveða sérstaklega að takmarka aðgengi að auðlindum til hagnýtingar í ábataskyni þá sé það með fullu gjaldi. Ég held að allir ættu að vera tiltölulega sammála um að fyrirkomulagið ætti að vera þannig.