151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson ætlaði í lokin að nota vísunina í Ferð án fyrirheits. Það hefði verið við hæfi miðað við áherslur hans að öðru leyti. Nú er það svo að við erum ekki endilega að ræða hér um frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs. Það frumvarp var reyndar flutt af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar og Pírata fyrr í haust eins og það hefur verið flutt nokkrum sinnum áður. Bara til upprifjunar var þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012. Hún gekk út á það að spurt var hvort flytja ætti frumvarp á þingi byggt á tillögu stjórnlagaráðs. Það fól ekki í sér ákvörðun um niðurstöðu enda skýrlega tekið fram, bæði hér í þingsölum og reyndar á kjörseðlinum sjálfum, að eftir að slíkt frumvarp hefði verið flutt færi um það eins og önnur frumvörp í þinginu; það gæti tekið breytingum, það gæti verið samþykkt og það gæti verið fellt. Eins og sú nálgun var 2012 batt það ekki hendur manna við annað en að flytja frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs. Látum það vera.

Það sem mér finnst hins vegar ástæða til að bregðast við í ræðu hv. þingmanns er það sem lýtur að núverandi stjórnarskrá. Ég er sammála hv. þingmanni um að núverandi stjórnarskrá er ekki eins og töflurnar sem Móses kom með ofan af Sínaífjalli, óumbreytanlegt eða einhvers konar boðskapur frá almættinu sem ekki má hrófla við, enda hefur núverandi stjórnarskrá tekið mjög miklum breytingum í gegnum tíðina, ekki bara á tímanum meðan Ísland var konungsríki heldur líka á þeim tíma sem liðinn er frá lýðveldisstofnun þegar meiri hluta ákvæða núverandi stjórnarskrár hefur verið breytt frá 1944 í átta umferðum. Það er því ekki eins og menn hafi litið svo á að það mætti engu breyta.