151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur auðvitað sakað mig um þvergirðingshátt og skal ég glaður gangast við því að hafa gert ýmislegt til að tefja fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs næðu fram að ganga. Það hefur hins vegar byggt á málefnalegum forsendum og gagnrýni á einstaka þætti í því. Menn geta komið hingað og talað um þvergirðingshátt og eitthvað þess háttar en það breytir ekki því að þeir verða að byggja málflutning sinn á staðreyndum, ekki á staðleysum, t.d. varðandi stjórnarskrána. Og af því að hv. þingmaður var að rifja upp að við byggjum við einhverja danska stjórnarskrá og þess háttar, þá ætla ég að fara yfir það sama og ég fór yfir með samflokksmanni hv. þingmanns, Guðmundi Andra Thorssyni, hérna áðan: Stjórnarskránni sem Ísland fékk 1874 var breytt alloft meðan Ísland var enn konungsríki. Eftir að Ísland varð lýðveldi hefur stjórnarskránni verið breytt átta sinnum og meiri hluta þeirra ákvæða sem nú standa í stjórnarskránni hefur verið breytt. Nú geta menn verið þeirrar skoðunar að það séu ekki miklar breytingar, það að breyta meira en helmingi í stjórnarskrá séu ekki miklar breytingar heldur litlar. Menn geta verið þeirrar skoðunar. En stjórnarskránni hefur hins vegar verið breytt í mjög veigamiklum og verulegum atriðum, fyrst meðan Ísland var enn þá konungsríki og síðan þegar Ísland verður fullvalda ríki. Þegar farið er út í breytingar 1920 og 1932 eru gerðar veigamiklar breytingar í bæði skiptin. Síðan er ýmsu breytt 1944 og svo frá 1944 eru átta sinnum gerðar breytingar á stjórnarskránni, 47 eða 48, ég man ekki hvort er, greinum af 80 breytt á lýðveldistímanum. Það eru töluverðar breytingar. Ég er þeirrar skoðunar að það megi halda áfram þeim breytingum en það að taka þurfi plaggið frá A til Ö og umsnúa því öllu er að mínu mati fullkomlega ástæðulaust.

(Forseti (ÞorS): Forseti skilur ákafa þingmanna að mæta í ræðustól en þeir eiga að bíða kynningar.)