151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:32]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta var kannski ósanngjörn spurning af því að við erum að ræða stjórnarskrána og auðvitað þarf það að vera almennt orðað þar. Ég er alveg sammála því. Eins og þingmaðurinn gat um þá getur verðmætasköpun breyst, það verður kannski ekki arður af því á morgun sem arður er af í dag. En það sem varð til þess að ég ákvað að koma hingað upp og spyrja þingmanninn út í þetta kemur stjórnarskrárumræðunni kannski ekki beint við. En samt sem áður, þegar við erum að ræða um stjórnarskrána og þetta ákvæði, þá fókuserum við bara alltaf á þetta eina sem við erum alltaf að togast á um hér í þinginu, þ.e. gjald af auðlindum úr sjó. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við lendum því á einhvern hátt hvað eru auðlindir og hvað eru arðbærar auðlindir í náttúrunni, hvort sem það er til sjávar eða sveita, svo að þetta ágæta auðlindaákvæði, sem er í frumvarpinu, sem ég tek alveg undir að get alveg kvittað fyrir, nýtist betur. Það er eiginlega þess vegna sem ég er að spyrja að þessu. Þess vegna langaði mig til að velta þessu upp í umræðunni núna um stjórnarskrármálið.