151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:53]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og gefa þessa skýrslu hér í dag. Mig langaði aðeins að spyrja betur um 2. mgr. 66. gr. sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir spurði um áðan. Samkvæmt frétt Vísis verður ferðafólk krafið um neikvæða niðurstöðu úr PCR- prófi á brottfararstað. Ég velti fyrir mér hvort þetta þýði þá að starfsfólk flugfélaga muni hafa yfirumsjón með því að ganga úr skugga um að ferðafólk sé með þessar niðurstöður og að þær séu neikvæðar. Telur hæstv. ráðherra að það fyrirkomulag, sé það rétt, standist 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að ekki megi banna íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins? Hefur meðalhóf verið tryggt nægilega vel í þessum fyrirhuguðu aðgerðum?

Hér fyrir nokkrum vikum varð skylda að fara í tvöfalda skimun við komu til landsins og er það vissulega íþyngjandi aðgerð. Er sú aðgerð að krefja ferðafólk og þá sér í lagi íslenska ríkisborgara um neikvætt PCR-próf í brottfararlandi innan valdheimilda íslenska ríkisins og er verið að gæta að meðalhófi með nægilega fullnægjandi hætti?