151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, aukin lýðræðisfræðsla í skólakerfinu er lykilatriði, ekki bara til þess að vel takist til við lækkun kosningaaldurs heldur til þess að vel takist til við þróun samfélagsins til framtíðar. Það er eitthvað sem hefur komið fram í hvert einasta skipti sem við höfum sent frumvörp um lækkun kosningaaldurs til umsagnar. Í hverri einustu umsögn sem kemur frá ungu fólki er bent á að lýðræðisfræðsla í skólakerfinu sé allt of rýr, misgóð eftir skólum. Einstaka skóli sinnir henni vel en í fæstum skólum hafa kennarar einu sinni ráðrúm til að gera þetta almennilega. Það þarf að laga og ekki bara með formlegum tímum í lýðræðisfræðslu heldur með því að lýðræðisvæða skólakerfið af því að það samfélag á að endurspegla lýðræðissamfélagið Ísland. Ég tek einfaldlega undir með þingmanninum. Þetta þarf að stórefla og það væri eðlilegt framhald af samþykkt þessa frumvarps að ráðast í gríðarstórt átak til að efla lýðræðisfræðslu á öllum skólastigum.