151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í ræðu hér heldur bara lýsa því yfir að ég er í grundvallaratriðum sammála því máli sem hér er til umræðu. Það er enda byggt á mjög traustum grunni frumvarps sem núverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, vann fyrir margt löngu og hefur verið lagt fram hér, af mér þetta árið en hv. fyrsta flutningsmanni, Andrési Inga Jónssyni, fyrir að mig minnir tveimur árum, sem fjallar um að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum því það er einfaldara að gera. Það er hægt að breyta lögum án þess að breyta stjórnarskránni. Eins og við vitum þarf þetta mál, nái það fram að ganga, einnig samþykki næsta þings en það er ágætt að vinna á mörgum vígstöðvum í einu. Í því skyni að vinna að sama markmiði höfum við aftur lagt fram þetta gamla þingmál Vinstri grænna um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Ég hvet þau sem eru miklir fylgismenn þessa máls til að styðja það mál líka svo við getum saman unnið að því að lækka kosningaaldurinn.