151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:39]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fara yfir það margoft að á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga höfum við verið að greiða sveitarfélögum fyrir ákveðna þjónustu sem að þessu lýtur síðan 1991. Auðvitað hefur það síðan verið að taka breytingum. Það sem verið er að gera hér er að verið er að samræma með hvaða hætti þetta er gert. Það er verið er að gera þetta skilvirkara. Það er verið að bæta inn samfélagsfræðslu sem er gríðarlega mikilvæg. Maður hefði haldið að flokkur hv. þingmanns, sem leggur mikið upp úr íslenskum gildum, teldi mjög mikilvægt að fólk væri frætt um samfélagið, um menninguna, um það sem er hluti af hefðum og venjum hér. Maður hefði líka haldið að hv. þingmaður og flokkur hans væru mjög fylgjandi því að einstaklingar sem eru búnir að fá hér stöðu fái kennslu í íslensku. Auðvitað er hér verið að blanda saman tveimur ólíkum málum. Annaðhvort teljum við mikilvægt að fólk sem þegar er komið með stöðu hér (Forseti hringir.) fái kennslu í grunngildum íslensks samfélags og aðstoð við að aðlagast því eða ekki. Útlendingalögin eru síðan allt önnur umræða. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að blanda þessu saman eins og hv. þingmaður er að gera.