151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því nú alveg innst inni að ég og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson séum sammála um kjarnann í þessu máli sem er akkúrat þetta, eins og hv. þingmaður nefndi, að við aðstoðum þá sem minna mega sín í okkar nærumhverfi en styðjum sömuleiðis við það fólk sem vill búa heima við og þar kemur þróunarsamvinnan inn í. Þar kemur að fjölþjóðasamstarfi og alþjóðasamstarfi. Þar kemur líka inn í að styrkja konur til mennta í þróunarlöndunum líkt og gert var í ríkisstjórn hv. þingmanns. Það er eitt mikilvægasta verkefnið sem við getum stutt og styrkt í alþjóðasamstarfi en ég held að þegar kemur að okkar nærumhverfi, vegna þess að hv. þingmaður var að tala um það og að við á Vesturlöndum aðstoðum sem best í okkar nærumhverfi, þá þurfum við að gera það vel og við þurfum akkúrat að hætta útúrsnúningum og öfugmælum og nákvæmlega ræða út frá staðreyndum líkt og hv. þingmaður nefndi í sínu andsvari. Staðreyndin er sú að það eru 75 milljónir manna á flótta um allan heim og meira en helmingurinn af þeim milljónum eru konur og börn. Það eru viðkvæmur hópur sem gjarnan verður undir, ekki gjarnan heldur ansi oft, og þegar kemur að ofbeldi gagnvart þessum hópi þá er það mjög útbreitt, mansal o.fl. Þetta er fólkið og þetta eru hóparnir sem við viljum aðstoða og ég veit að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sammála mér í því.