151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við fyrri spurningunni um það hvort ráðherra væri ánægður með þessa tregðu: Nei, hann er bara hundfúll og hefði viljað sjá þetta vera komið lengra, en svona er þetta. Ég er nokkrum sinnum búinn að biðja ráðuneytið að skoða hvernig þetta er í nágrannalöndum okkar þar sem sambærileg þjónusta er. Það virðist vera mjög erfitt að festa hönd á það líka og virðist sem menn sjái bara gegnum fingur sér með þetta þar, að það sé á gráu svæði með hvaða hætti sé verið að uppfylla vinnuverndarlöggjöf hvað þetta snertir.

Ég er hins vegar ekki með nákvæma tölu, ég var að biðja ráðuneytið um þær upplýsingar, hversu nákvæmlega margir einstaklingar þetta eru. En eftir að þetta frumvarp er samþykkt þá er auðvitað ekki um eiginlegt brot á vinnuverndarlögum að ræða vegna þess að við erum að veita undanþágu fyrir þetta fyrirkomulag. Engu að síður er mikilvægt að þessu sé fundinn staður til framtíðar eða framtíðarfyrirkomulag. Þetta er búið að veltast í nokkur ár. Menn vilja skoða þetta í samhengi við aðra heildarendurskoðun en það er alveg eins líklegt að þetta muni leysast á næstu 12 mánuðum og á síðustu þremur árum eða það hlýtur að enda með því að þetta leysist. En alla vega var samstaða um að óska eftir að þetta yrði gert svona og þess vegna féllst ráðherrann á það.