151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir andsvarið. Ég hef lesið þetta mál. Skilningur minn á því er sá að þungamiðjan að baki hugmyndar um netverslun sé einmitt jafnræðissjónarmiðið og samkeppnissjónarmiðið, að það sé í sjálfu sér auðveldlega hægt að hafa þá skoðun að netverslun með þessa vöru eigi ekki að vera til staðar. En ef hún er til staðar þá hljóti innlendir og erlendir aðilar að sitja við sama borð. Ég átta mig á því að þetta er alltaf viðkvæmt mál með tilliti til lýðheilsusjónarmiða. Með tilliti til þess hver veruleikinn með þessa vöru er nú þegar held ég að þetta sé umræða sem við verðum að taka upp í meðförum hv. allsherjarnefndar. Eins og ég sagði styð ég þetta mál og mér finnst það gott, en þetta er dálítið feimið frjálslyndismál í mínum huga. Það er líka áhugavert að heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir og segja um sitt eigið frumvarp að það sé á mörkunum að standast jafnræðissjónarmið með þeim breytingum sem orðið hafa á því.