151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra öðru sinni svörin. Ég er henni sammála um að rök þurfi að koma til þegar hið opinbera ætlar að hlutast til um að skerða samkeppni á frjálsum markaði. Ég þekki einnig þessi rök sem hún vísar til um neyslu annars vegar og ofneyslu hins vegar og þar með held ég að megi t.d. vísa til bjórbannsins sjálfs á sínum tíma. Að því sögðu held ég að lýðheilsurökin séu vitaskuld það ofarlega í huga margra að þau þurfi að fá sitt vægi í umræðunni. Það þarf að viðurkenna að þetta er mál sem snertir víða sára taug, ef svo má segja. Að því sögðu heyrist mér við vera í grundvallaratriðum sammála um hvað sé eðlilegt regluverk og leikreglur á þessum markaði. En af því að hæstv. ráðherra nefnir frelsi og frjálslyndi og aðstöðumun innlendra og erlendra aðila myndi ég nú beina því til hennar, sitjandi við ríkisstjórnarborðið, að líta kannski ögn lengra og á daglega neysluvöru alls almennings sem væru nú kannski landbúnaðarvörurnar. Þar erum við að beita regluverki og tollkerfi sem hefur áhrif á samkeppni. Leikurinn var vitaskuld til þess gerður upphaflega að jafna leikinn milli innlendra og erlendra aðila og styðja við innlenda framleiðslu en framkvæmdin í dag er orðin sú að hér er jafnvel verið að beita tollum og hamlandi regluverki á vörur þar sem nánast engin samkeppni er. Ég myndi vilja beina því til hæstv. ráðherra að líta einnig til þess.