151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er sannfærður um að nefndin mun velta þessu fyrir sér. Ég held að við í nefndinni hljótum að reyna að hugsa þetta þannig að verði þessi nýja regla að lögum sé hún bæði sanngjörn, skynsamleg og framkvæmanleg og leitum einhverra leiða til að ná sameiginlegri niðurstöðu í því. Ég nálgast hins vegar málin úr annarri átt en hv. þingmaður. Ég tel að í frumvarpinu sé kannski full langt gengið í því að takmarka frelsi, bæði þeirra sem selja vöruna og þeirra sem vilja nálgast hana. En við hljótum að geta talað okkur niður á einhverja niðurstöðu í þeim efnum. Ég vildi bara leggja á það áherslu í þessu sambandi að það getur verið dálítið snúið ef við í þinginu ætlum að setja viðmiðanir um hvað sé eðlilegt að einstakur einstaklingur geti tekið með sér eða keypt sér í þessu sambandi. Ég játa að ég veit ekki alveg hvernig við eigum að nálgast það eða hvað er eðlilegt í því. Er það þannig að viðkomandi finni bragð eða finni á sér eða megi gefa einhverjum með sér? Eða hvernig ætla menn að hugsa það í praxís, í raunveruleikanum?