151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek auðvitað undir það, eins og ég sagði í upphafi, að við erum að stíga afar lítið skref og milli ýmissa ólíkra sjónarmiða, vissulega. En vegna orða hv. þingmanns þá er það staðreynd að heildarframleiðsla þessara handverksbrugghúsa er afar lítill hluti af heildarframleiðslu íslenskra áfengisframleiðenda því að þeir stóru eru afar stórtækir á markaðnum. Þó að það færu fram einhver magnkaup, nokkrar kippur eða eitthvað meira en prufa, væri það afar lítil færsla af því sem venjulega fer fram í áfengisverslun ríkisins. Ég tek líka undir að það væri ansi erfitt í framkvæmd, myndi ég ætla, og myndi kannski líka svara illa því ákalli samtaka handverksbrugghúsa að fá smáhjálp, „smábúst“, ef þeir gætu bara selt einn og einn öl út úr húsi. Við þurfum líka að átta okkur á því að lögaðilar eru alltaf í annarri stöðu, sem eru með vínveitingaleyfi, geta farið þarna og keypt meira en einstaklingar ekki. Það þarf auðvitað líka að horfa til þess sjónarmiðs og þar sjáum við mikið ójafnræði í allri íslenskri verslun, hvort sem það er að versla við Costco eða innlenda framleiðendur. En það er kannski önnur saga. Síðan kom hv. þingmaður inn á jafnræðissjónarmiðið. Ég hafði örlitlar áhyggjur af því. Ég tel þó að við höfum fordæmi fyrir því að við gerum íslenskri framleiðslu hátt undir höfði og það hefur verið stefna okkar, ekki síst undanfarna mánuði, að aðstoða innlenda aðila og þess þá heldur held ég að nauðsynlegt sé að skoða líka netverslunarmálin.