151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég álít að frumvarpið sé þess eðlis að æskilegt sé að það fái ítarlega skoðun. Ég er ekki búin að gera það upp við sjálfa mig hvort ég muni styðja það eða ekki. Eins og ég nefndi í ræðu minni þarf að rýna betur þann hluta frumvarpsins sem nú liggur fyrir út frá lýðheilsusjónarmiðum. Í umfjöllun í samráðsgátt og fyrri umfjöllun hefur aðallega verið horft á áhrifin af netversluninni sem liggja í rauninni ekki fyrir hér sem tillaga. Þá hefur kannski fallið svolítið í skuggann að greina áhrifin af akkúrat þessu aukna aðgengi. Eins heyrist mér af umræðunni hér að kannski séu uppi ýmis sjónarmið um útfærsluna og í rauninni eigi eftir að ræða hversu mikið verður heimilt að selja með þessum hætti, hvernig mögulegt væri að hafa eftirlit með slíkri sölu og fleira í þeim dúr. Það hefur náttúrlega veruleg áhrif á endanlega tillögu sem kæmi til atkvæða í þingsal.