151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á fékk sá hluti frumvarpsins sem snýr að starfsumhverfi brugghúsanna, sá hluti þess sem er atvinnumál, mjög jákvæðar umsagnir í samráðsgáttinni. En eins og ég benti á fór kannski ekkert fyrir umfjöllun um lýðheilsuþátt þess hluta og því er meira verkefni eftir fyrir nefndina að fara yfir hann. Við megum aldrei gleyma því að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Eins og ég benti á áðan fáum við náttúrlega ítrekað upp rannsóknir sem sýna fram á tengsl áfengisneyslu og ýmiss konar ofbeldis, veikinda og útbreiðslu farsótta. Þar getur áfengi haft veruleg áhrif. Þess vegna getum við aldrei farið út í neinar breytingar á þessari löggjöf öðruvísi en að taka tillit til þess og vinna að einhverjum mótvægisaðgerðum. Þess vegna benti ég líka á aðrar mögulegar leiðir sem við höfum svo sem líka oft rætt í þingsal, t.d. myndi það auðvitað skipta miklu máli ef öll framleiðslufyrirtæki landsins gætu keypt raforku á sama verði, eins að brugghús geti að lágmarki selt framleiðslu sína í áfengisversluninni í sama bæjarfélagi eða í sama landshluta.