151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nákvæmlega. Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um hérna, hvort minni breytingar hafi raunveruleg áhrif og þurfi svona rosalega andstöðu á Alþingi. Að mínu viti hafa kaup á áfengi ekki aukist með fjölgun útsölustaða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem meira að segja byrjaði með netverslun til að reyna að auka aðgengi fólks á Íslandi að áfengi og bæta þjónustuna. Af hverju viljum við ekki bæta þjónustu og stöðu íslenskra aðila? Það er mín bjargfasta trú að með því færum við kaup á erlendum áfengistegundum yfir í íslenskar, frá erlendum aðilum til íslenskra aðila. Það er auðvitað ljóst af tölunum að Íslendingar kaupa minna af innlendum tegundum af áfengi heldur en t.d. nágrannaþjóðir okkar, ef við berum okkur saman við þær.

Því spyr ég hv. þingmann: Telur hún að einhver sem vantar áfengi í dag geti ekki aflað sér þess? Það er ein spurning. Hin spurningin er: Er hv. þingmaður ekki sammála því að við eigum að reyna að búa til löggjöf og umgjörð sem hjálpar íslensku atvinnulífi, styður við íslenskar skatttekjur? Það eru yfir 200 störf í íslenskum brugghúsum. Við búum til þannig löggjöf sem er að sama skapi ábyrg og við styðjum við forvarnir. Við styðjum við íslenska aðila sem starfa í íslensku samfélagi, hvort sem það eru handverksbrugghús eða íslenskar verslanir. Eigum við ekki að búa til þannig löggjöf sem styður einmitt við þessa aðila? Það er algerlega ljóst að umhverfið í dag gerir það ekki og maður sér það vel í samráðsgáttinni hvað þessir aðilar kveinka sér mikið undan þeirri stöðu sem áfengisverslun ríkisins setur þá í.