151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Vantar einhvern einhvern tímann áfengi? Ég get ekki verið sammála því. Það er bara niðurstaðan, áfengi er aldrei það brýn nauðsyn að einhvern vanti áfengi. En það sem er fyrst og fremst mikilvægt er að við gerum aldrei breytingar á áfengislöggjöfinni öðruvísi en að rýna áhrifin af því út frá lýðheilsusjónarmiðum og áhrifum á börn. Við erum allt of sjaldan að ræða samhengi ofbeldis og áfengisneyslu. Við erum ítrekað að breyta löggjöf og reyna að sníða löggjöf með það að markmiði að draga úr ofbeldi og finna leiðir til þess að hægt sé að bregðast við ofbeldi og næstum í hverju einasta tilfelli þar sem dómsmál verður út af ofbeldi kemur áfengi við sögu. Við getum ekki horft fram hjá því. Hins vegar er mikilvægt að rýna líka, eins og ég kom inn á í minni ræðu, starfsumhverfi brugghúsanna, að það sé sanngjarnt og eðlilegt, þannig að samkeppnisstaða þeirra sé eðlileg í því umhverfi sem við búum þeim að öðru leyti.