151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:37]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég veit fullvel hvernig smásölu tóbaks er háttað en þá langar mig samt sem áður að spyrja: Hvers vegna erum við þá að takmarka þá sölu og stefnum sjálfsagt að því að banna notkun tóbaks mjög víða, sennilega sölu tóbaks á endanum. Spurning mín snerist ekki um þetta heldur hvers vegna röksemdirnar sem við heyrum hér séu á þann veg að neysla bjórs eða alkóhóls sé í raun og veru ekki jafn heilsuspillandi og hún raunverulega er. Ég veit ekki hvað hver sjúklingur hjá SÁÁ kostar, að koma honum á réttan kjöl yfir höfuð, en ég veit að hvers kyns aukning á sölu áfengis leiðir á einhvern máta til aukinna vandræða. En það getur vel verið að ég sé tilbúinn til að treysta hv. þingnefnd til að finna lausn á þessu tiltekna máli vegna þess að ég skil byggðasjónarmiðin og ég skil ein og önnur sjónarmið sem að þessu lúta. En ég vil gjarnan fá svar við því hvort þetta sé eins og hver önnur vara, þetta ágæta efni, bjór.