151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í einhverja útúrsnúninga við hv. þingmann. Ég verð þó að segja að ég tók það skýrt fram í ræðu minni að allar þær tillögur sem fram hafa komið hér í þinginu, alla vega frá því að ég kom hingað inn, þar sem gert var ráð fyrir einhvers konar auknu frjálsræði á sviði áfengissölu hafa innifalið einhverjar takmarkanir, einhverjar sérreglur sem snúa að sölunni. Jafnvel þær sem lengst hafa gengið og gerðu ráð fyrir heimild til sölu tiltekinna áfengistegunda í stórmörkuðum voru engu að síður með takmörkunum. Ég held að við þurfum ekkert að deila um það, ég og hv. þingmaður, að það bæði geta og eiga að gilda sérstakrar reglur um sölu áfengis með sama hætti og gilda um sölu tóbaks, sem í smásölu eru reyndar miklu frjálslyndari en þær sem snúa að áfengi. Ég legg hins vegar áherslu á að þótt viðurkennt sé að um sé að ræða vöru sem getur verið skaðleg er engu að síður um að ræða vöru sem er lögleg í landinu. Ég hef ekki séð eða heyrt skynsamleg eða góð rök fyrir því að áfengi sem er afhent yfir búðarborð af ríkisstarfsmanni sé hættulegra en áfengi sem afhent er yfir búðarborð af starfsmanni einkafyrirtækis.