151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum. Umræðan hefur verið góð. Fyrst og fremst er verið að ræða um skref sem verið er að taka til að styðja við íslenskt handverk. Það er atvinnumál. Hér er verið að styðja íslenska framleiðslu og ákveðna útfærslu á verslunarhugmynd og tengist sér í lagi ferðaþjónustu. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu má gera ráð fyrir því að sala á grundvelli þessa framleiðslusöluleyfis, sem er undanþága frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis, muni eiga sér fyrst og fremst stað í tengslum við ferðaþjónustu hjá leyfishafa.

Ég vil jafnframt segja að í umræðu um þessi mál almennt er kannski það eina sem við getum verið sammála um er að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Mér finnast líka lýðheilsusjónarmið mjög mikilvæg, eins og fram hefur komið í umræðunni og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir hafa komið inn á. Ég er þeirrar skoðunar að þar sé mikilvægast kynning og fræðsla þegar upp er staðið. En auðvitað verða að vera einhverjar reglur og virðing fyrir því að þetta er engin venjuleg neysluvara, hvernig sem við lítum á þær hömlur sem við setjum á aðgengi að þeirri vöru. Ég held að það verði alltaf svolítið teygð umræða og rök sem geta orðið klén í báðar áttir.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem talaði á undan mér, nefndi það sem ég ætlaði fyrst og fremst að koma að í ræðu minni, vegna þess að þetta tengist útfærslu, þegar brugghús taka á móti gestum og byggja upp mjög skemmtilega útfærslu á þeirri hugmynd. Þau kynna sína vöru og það sem liggur að baki framleiðslunni. Þau geta tekið þetta alla leið og selt vöru sína gestum sem þeir taka með sér. Þá er auðvitað verið að framleiða meira en bara áfengt öl og þá á þessi hugmyndafræði alveg jafn vel við.

Þar sem hæstv. ráðherra ætlar að halda hér lokaræðu og taka utan um þá umræðu sem átt hefur sér stað um málið þá beini ég spurningu til ráðherra um hvernig standi á því að það er ekki hluti af frumvarpinu, hvort ekki hafi verið hugað að því. Ég beini því jafnframt til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, og af því að hugtakið jafnræði hefur verið í umræðunni sé það undir formerkjum jafnræðis sem við horfum til stuðnings við íslenska framleiðslu, stuðning við íslenskt handverk. Ég legg til að það verði skoðað að þetta takmarkist ekki einvörðungu við áfengt öl heldur nái til þeirrar íslensku framleiðslu sem á sér stað og þá hugmyndafræði sem í raun er verið að styðja við. Þá um leið er þetta mikilvægt atvinnumál. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta ágæta mál.