151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:06]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa ágæta máls. Það fer vel á því að aflokinni umræðu um breytingar á áfengislöggjöfinni að við fjöllum um umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í eitt eða tvö atriði. Við vitum auðvitað öll að það fellur til gríðarlegt magn af einnota umbúðum, plasti, áli og gleri, eins og fram hefur komið. Keflavíkurflugvöllur er gerður að umtalsefni í greinargerð með frumvarpinu, enda ekki að undra því að þar í gegn fara eða fóru a.m.k., getum við sagt, allt að 10 milljónir farþega á ári. Þar fellur til gríðarlegt magn af umbúðum. Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því að þar eru í umferð umbúðir sem hvorki hefur verið greitt fyrir skilagjald né umsýsluþóknun. Það mun falla undir skilakerfið að þessum lögum samþykktum. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta muni hafa áhrif á fjárhag ríkisins eða útgjöldin í þessu eða hvort mat hafi verið lagt á það hvort þetta núllist nokkurn veginn út því að bæði eru einhverjar umbúðir að fara út úr landinu og síðan koma umbúðir inn til landsins. Hefur verið skoðað og rýnt hvaða fjárhagsleg áhrif þetta hafi á endurvinnslusjóð?