151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í að afgreiða það fljótt og vel. En ég verð að viðurkenna að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kveikti aðeins í mér þegar hann fór að tala um plastvandamálin, mengun sem hefur skapast af völdum plasts en svo líka einmitt endurvinnsluna og nefndi sérstaklega frumkvöðlafyrirtæki í Hveragerði sem hefur verið að endurvinna plast. Því varð ég að nota tækifærið og beina því til hæstv. ráðherra og hv. umhverfis- og samgöngunefndar að við horfum líka svolítið á það hvernig við getum byggt kerfið þannig upp að það ýti undir enn frekari nýsköpun og endurvinnslu á plasti eða öðrum úrgangi hér á landi. Það er því miður enn þá þannig að Úrvinnslusjóður og kerfið sem við höfum byggt í kringum þetta er með of mikla hvata til útflutnings en ekki til innlendrar nýsköpunar og framleiðslu. En það frumvarp sem hér liggur fyrir er af hinu besta og ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þessum efnum.