151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og að drepa á skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Ég vil nota tækifærið og segja frá máli sem ég og hv. þm. Bergþór Ólason höfum beitt okkur fyrir að verði rætt innan Evrópuráðsins og lýtur að stríðsátökunum í Nagorno-Karabakh á síðasta ári. Stríðið í Nagorno-Karabakh, milli Armeníu og Aserbaídsjans, á sér langa sögu eða allt til þess að Sovétríkin tóku að líða undir lok. Þann 27. september á síðasta ári braust út enn eitt stríðið í Nagorno-Karabakh, það versta síðan 1990, og olli það sem fyrr miklu mannfalli og hörmungum. Ég sá það með eigin augum þegar ég heimsótti svæðið meðan stríðið geisaði. Ekki er hægt að lýsa því með orðum, herra forseti, hversu miklum hörmungum stríðsátök valda og sem fyrr eru það óbreyttir borgarar sem verða verst úti. Fólk sem leitaði skjóls í kirkjum í Karabakh var ekki óhult þar sem árásir voru gerðar á allt sem fyrir varð, kirkjur, skóla og sjúkrahús. Mannvonskan var alger.

Herra forseti. Það mun aldrei líða mér úr minni að verða vitni að slíku. Sterkar vísbendingar eru um að málaliðar úr hryðjuverkasamtökum í Miðausturlöndum hafi tekið þátt í stríðinu og barist með Aserbaídsjan. Það hefur m.a. komið fram frá málaliðunum sjálfum sem voru teknir höndum. Þeir hafa viðurkennt að hafa verið ráðnir til verksins af Tyrkjum og í framhaldi fluttir til Aserbaídsjans og á vígvöllinn af þeim. Bannað er að ráða málaliða í stríðsátök samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðasamfélagið er skuldbundið til að beita sér gegn slíku. Af alþjóðasamningum sem banna þátttöku málaliða í stríðsátökum má nefna alþjóðasamning frá 1989 sem bannar ráðningu málaliða, fjármögnun og þjálfun þeirra. Aserbaídsjan og Tyrkland hafa skuldbundið sig til að fylgja þessum samningi frá 1989. Einnig má nefna viðauka við Genfarsáttmálann frá 1949. Það að Tyrkir hafi ráðið málaliða, sem einnig eru hryðjuverkamenn, til þess að berjast með hermönnum Aserbaídsjans í stríðinu í Nagorno-Karabakh er klárlega brot á alþjóðalögum. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þátttöku málaliða í stríðsátökum í sérstakri ályktun nr. 42 frá 26. september 2019. Sameinuðu þjóðirnar leggja í ályktun sinni áherslu á að þátttaka málaliða í stríðsátökum sé ógn við frið í heiminum, öryggi og mannréttindi.

Tillagan sem við höfum lagt fram til Evrópuráðsins er þess efnis að Evrópuráðið skipi sérstaka nefnd til að rannsaka hvort málaliðar, hryðjuverkamenn frá Miðausturlöndum, hafi tekið þátt í stríðinu í Nagorno-Karabakh í þágu Aserbaídsjans. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu er lagt til, í tillögu okkar, að Evrópuráðið fordæmi það að ríki Evrópuráðsins, Tyrkland og Aserbaídsjan, skuli brjóta alþjóðalög og samninga hvað þetta varðar.

Að því sögðu, herra forseti, taldi ég rétt að vekja athygli á þessu máli. Þetta er mikilvægt mál og ég vona að það fái framgang innan Evrópuráðsins. Í lokin vil ég nota tækifærið og þakka fráfarandi formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir afar gott starf og gott samstarf. Hún hefur sinnt þessu með miklum sóma fyrir okkar hönd í Evrópuráðinu.